Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, hefur lýst því yfir að al-Qaeda liðar hafi verið hraktir á brott frá Bagdad, þökk sé öryggisskipulagi sem var sett í gang í Bagdad fyrir ári síðan, og segir hann að al-Qaeda muni brátt verða sigraðir í öllu landinu.
Maliki segir herinn nú berjast gegn uppreisnarmönnum í Nineveh héraði í norður-Írak en yfirvöld segja liðsmenn al-Qaeda hafa safnast saman þar eftir að þeir flúðu Bagdad. Yfirvöld hafa sent liðsauka til höfuðborgar héraðsins, Mosul, en Bandaríkjaher hefur sagt að Mosul sé eina borgin sem er eftir þar sem al-Qaeda hafi sterk ítök.
Öryggisaðgerðirnar voru gerðar á sama tíma og Bandaríkjaher ákvað að fjölga hermönnum um 30.000 í Írak. Ofbeldi hefur minnkað á götum Bagdad og sprengjuárásum hefur fækkað. Samkvæmt tölum yfirvalda í Írak og Bandaríkjunum hefur ofbeldisverkum í Írak fækkað um 62% síðan í júní á síðasta ári.