Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt Barack Obama, helsta keppinaut eiginkonu sinnar Hillary Clinton um að verða forsetaefni bandarískra demókrata, og sagt hann gera lítið úr þeim árangri sem náðst hafi í forsetatíð hans. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Við höfum einn frambjóðanda sem hefur haldið því skýrt fram að eina leiðin til að breyta Bandaríkjunum sé að halda inn í splunkunýja framtíð án flokkadrátta og að því verðum við að hunsa algerlega forsetatíð þeirra sem komu góðum hlutum til leiðar á tíunda áratug síðustu aldar eða komu í veg fyrir að slæmir hlutir ættu sér stað á þeim áratug,” sagði forstinn fyrrverandi er hann ávarpaði nemendur Stephen F. háskólans í Austin í Texas.
Clinton nefndi ekki nafn Obama er vísaði greinilega til hans þegar hann sagði að umræddur frambjóðandi héldi því fram að reynsluleysi væri kostur þar sem þeir sem væru reynslulausir hefðu ekki reitt neinn til reiði. Þá sagði hann málflutning umrædds frambjóðanda greinilega virka enda hafi hann skotið fjórum frambjóðendum ref fyrir rass. Það hafi hins vegar bjargað Hillary hvað hún sé hugrökk og njóti mikils stuðnings í grasrótinni.
„Það skiptir greinilega ekki máli hversu miklu góðu þú hefur komið til leiðar. Við verðum að losa okkur við þig af því að þú varðst að berjast fyrir því að koma góðu til leiðar. Þú varðst að berjast til að koma í veg fyrir slæma hluti og þar sem þú barðist þá reittirðu einhvern til reiði. Við ættum að gefa þér gamalt úr og láta þig setjast í helgan stein. Það er ekki mögulegt að þú getir lagt neitt að mörkum til framtíðar Bandaríkjanna,” sagði Clinton.