Chelsea Clinton, dóttir Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna, og Hillary Clinton sem sækist eftir að verða forsetaefni demókrata í næstu kosningum, hefur nú gengið formlega til liðs við kosningabaráttu móður sinnar. Skammt er síðan David Shuster, fréttamaður MSNBC- sjónvarpsstöðvarinnar varð að biðjast afsökunar á því opinberlega að hafa sakað Clinton hjónin um að selja dóttur sína í kosningabaráttunni.
Chelsea hefur að undanförnu heimsótt háskóla og kynnt þar stefnumál móður sinnar. Hún hefur þó að mestu neitað að ræða um sjálfa sig og neitar alfarið að veita blaðamönnum viðtöl.
Hún hefur þó greint frá nokkrum persónulegum atriðum eins og því að móður hennar dreymi um að eignast barnabörn og að faðir hennar skipuleggi líf sitt úr frá sjónvarpsþættinum „Grey's Anatomy."
Þá segist hún hvorki hafa uppi áform um að feta ífótspor foreldra sinna né flytja aftur í Hvíta húsið þar sem hún ólst upp.„Pólitískur metnaður minn nær ekki lengra en það að ég vil aðstoða móður mína við að verða forseti,” segir hún. “Ég er tuttugu og sjö ára og ég mun ekki flytja aftur heim til foreldra minna sama hvað ég elska þau mikið. Ég bý og starfa í New York og lifi utan sviðsljóssins eða ég gerði það a.m.k. þar til fyrir fimm vikum.”Chelsea þykir ekki hafa til að bera ræðusnilld foreldra sinna en kannanir benda engu að síður til þess að heimsóknir hennar hafi skilað árangri þar sem hún hefur komið fram fyrir hönd móður sinnar.