Kveikt hefur verið í stofnunum, bílum og gámum víðs vegar um Danmörku í kvöld fjórða kvöldið í röð. Lögregla segir þó að mun minna hafi verið um íkveikjur það sem af er kvöldi en undanfarin kvöld. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Í Albertslund var kveikt í fjórum bílum auk þess sem kveikt var í gámum í nágrenni lögreglustöðvarinnar og í Árósum var eldur borinn að leikskólabyggingu. Í Kaupmannahöfn hefur verið kveikt í sex gámum og hefur þrettán ára drengur verið handtekinn grunaður um íkveikju. Slökkvilið víðs vegar um Danmörku voru kölluð út í 185 brunaútköll síðastliðna nótt og eru þau flest talin tengjast mótmælum múslíma vegna endurbirtingar einnar af Múhameðsmyndum Jyllands-Posten á miðvikudag. Tuttugu eru í haldi vegna óspekta og gruns um íkveikjur frá því myndin var endurbirt.