Sarkozy harðlega gagnrýndur

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti þykir hafa sýnt óvenjulega hvatvísi bæði í …
Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti þykir hafa sýnt óvenjulega hvatvísi bæði í einkalífi og starfi á undanförnum mánuðum. Reuters

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti sætir nú harðri gagnrýni fyrir þá hugmynd sína að láta franskar fjölskyldur “ættleiða” minningu þeirra frönsku gyðingabarna sem létu lífið í helför gyðinga á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.  

Kennarar, sálfræðingar og pólitískir andstæðingar Sarkozy hafa þegar gagnrýnt hugmyndina og sagt rangt að íþyngja börnum með sorg og sektarkennd vegna liðinna atburða. Í dag slóst síðan Simone Veil einn þekktasti Frakki sem lifði af helförina, í lið með gagnrýnendum hennar. Segir hún  hugmyndina "óhugsandi, óframkvæmanlega, ógeðfelda og umfram allt ósanngjarna,” gagnvart nútímabörnum.  

„Það er ekki hægt að leggja slíkt á tíu ára börn. Það er ekki hægt að biðja börn um að samsama sig látnum börnum,” segir Veil, sem var flutt í Auschwitz fangabúðirnar í Póllandi þegar hún var sextán ára. 

„Slíkt tilfinningalegt álag getur haft mjög neikvæð áhrif á barn sem er að mótast,” segir í yfirlýsingu Gilles Moindrot, formanns stéttarfélagsins Snuipp-FSU sem flestir grunnskólakennarar tilheyra. Þá segir í yfirlýsingu barnaréttindasamtakanna EMDH að ekki eigi að byggja menntun barna á dauðanum. 

Sarkozy sagði er hann ávarpaði félag franskra gyðinga á miðvikudag að öll tíu ára örn í landinu ættu að ættleiða minningu barns sem hefði látið lífið í helförinni en rúmlega 11,100 frönsk gyðingabörn voru flutt í útrýmingarbúðir nasista í austur Evrópu í síðari heimsstyrjöldinni. Hann varði hugmynd sína í dag og sagði það viðtekin sannindi að það skaði ekki börn að fá að heyra sannleikann.

Pólitískir andstæðingar Sarkozy segja þetta enn eitt dæmið um hvatvísi hans og skort á raunverulegri pólitískri stefnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka