Hashim Thaci, forsætisráðherra Kosovo héraðs segir að yfirvöld í héraðinu muni lýsa formlega yfir sjálfstæði þess á morgun. Thaci sagði eftir fund sinn með trúarleiðtogum í héraðinu í dag að þá muni vilji íbúa héraðsins ná fram að ganga. Dagblöð í héraðinu segja að sjálfstæðisyfirlýsingin verði gefi út klukkan 14 að staðartíma.
Fyrr í dag samþykkti Evrópusambandið áætlun um að veita yfirvöldum í héraðinu aðstoð í öryggismálum, stjórnsýslu og dómsmálum eftir að sjálfstæði hefur verið lýst yfir. Stefnt er að því að 2.000 manns á vegum sambandsins verði við störf í landinu samkvæmt áætluninni frá og með næsta sumri.
Kosovo, er formlega hluti Serbíu en hefur verið undir yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1999. Serbar og serbneski minnihlutinn í landinu eru andvíg aðskilnaði héraðsins frá Serbíu en yfirvöld í Serbíu hafa lýst því yfir að þau hyggist þó ekki beita vopnavaldi til að reyna að koma í veg fyrir hann.