Tugir þúsunda Kosovo-Albana dönsuðu á götum Pristina, höfuðborgar héraðsins í nótt eftir að Hashim Thaci, forsætisráðherra héraðsins gaf í skyn í gær að sjálfstæði þess yrði lýst yfir í dag. Fólkið skaut upp flugeldum og veifaði fána Albaníu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Fréttaskýrendur segja hins vegar töluverða hættu á því að til átaka komi á milli Kosovo-Albana og Kosovo-Serba. Kosovo-Serbar eru um 10% íbúa héraðsins og eru þeir mjög andvígir því að formlegt samband héraðsins við Serbíu verði rofið.
Mikil andstaða er einnig við sjálfstæði Kosovo í Serbíu og þar söfnuðust um 1.000 manns saman í höfuðborginni Belgrad í gærkvöldi til að mótmæla ummælum Thaci og yfirvofandi aðskilnaði. Yfirvöld þar í landi hafa hins vegar lýst því yfir að þau hyggist ekki beita vopnavaldi til að reyna að koma í veg fyrir aðskilnaðinn.