Forsætisráðherra Serbíu segir sjálfstæðisyfirlýsingu falska

Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu
Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu Reuters

Forsætisráðherra Serbíu, Vojislav Kostunica, kallaði sjálfstæðisyfirlýsingu Kósóvó í dag falska og sakaði Bandaríkjamenn um að eyðileggja alþjóðlegt skipulag og reglu í þágu eigin hernaðarhagsmuna. Rússar krefjast þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman hið fyrsta.

Sérfræðingar segja gríðarlega hættu á að deilur eða átök milli Serba í Kósóvó og Albana brjótist út.

Albanskir Kósóvar, sem eru í miklum meirihluta hafa fagnað stofnun hins nýja ríkis, en sjálfstæðisyfirlýsingin var samþykkt einróma á þingi Kósóvó fyrr í dag.

Hashim Thaci, forsætisráðherra Kósóvó, lagði á það áherslu eftir að sjálfstæðisyfirlýsingin var samþykkt að ríkið yrði í fullu samræmi við áætlun Sameinuðu þjóðanna um skilyrðisbundið sjálfstæði, sem hönnuð var af Martti Ahtisaari, fyrrum forseta Finnlands.

Kósóvó hefur verið undir stjórn Sameinuðu þjóðanna síðan herlið Atlantshafsbandalagsins rak á brott serbneskar hersveitir árið 1999. 2.000 manna öryggisgæslulið á vegum Evrópusambandsins mun nú taka við gæslu í Kósóvó ásamt herliði NATO.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert