Al Fayed segir Díönu og Dodi hafa verið myrt

Mohamed al-Fayed talar við blaðamenn utan við dómhúsið í Lundúnum …
Mohamed al-Fayed talar við blaðamenn utan við dómhúsið í Lundúnum í morgun. Reuters

Kaupsýslumaðurinn Mohamed al Fayed bar í dag vitni fyrir dómi í réttarrannsókn, sem nú fer fram í Lundúnum vegna dauða Díönu prinsessu og Dodi, sonar al Faydes. Fullyrti al Fayed að þau Díana og Dodi hefðu verið myrt og líkti bresku konungsfjölskyldunni við fjölskyldu Drakúla.

Al Fayed  sagði, að Karl Bretaprins hefði átt aðild að samsæri um að „hreinsa til" svo hann gæti gifst Camillu Parker Bowles. Þá sagði hann að dauði þeirra Díönu og Dodi hefði verið „slátrun." 

Að sögn fréttamanns Sky sjónvarpsstöðvarinnar, sem var í réttarsalnum, las al Fayed upp langan lista með nöfnum þeirra sem hann telur tengjast láti þeirra Díönu og Dodi, þar á meðal Condon lávarðar, fyrrum lögreglustjóra í Lundúnum, og Sarah McCorquodale, systur Díönu, sem hann hefur ekki nefnt fyrr.

Hann sagðist ekki vera að koma fram með neinar ásakanir heldur aðeins að lýsa því hvernig hann teldi að lát þeirra Díönu og Dodi hefði borið að höndum. Þá sagði hann að Díana hefði sagt sér í júlí, skömmu fyrir dauða sinn, að hún óttaðist um líf sitt og vissi að feðgarnir Filippus og Karl vildi ryðja sér úr vegi.

Al Fayed fullyrðir, að breska leyniþjónustan MI6 hafi sett á svið bílslysið í París þar sem Díana, Dodi og Henri Paul, bílstjóri þeirra, létu lífið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert