Utanríkisráðherrar Breta og Ítala segja að ríkisstjórnir þeirra muni viðurkenna sjálfstæði Kosovo. Fyrr í dag lýsti Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka, því yfir, að þarlend stjórnvöld myndu einnig viðurkenna sjálfstæði nýja ríkisins og sagði að forseti Frakklands hefði skrifað forseta Kosovo bréf þessa efnis.
„Breska ríkisstjórnin hefur ákveðið að viðurkenna Kosovo," sagði David Milliband, utanríkisráðherra Bretlands, við blaðamenn eftir ráðherrafund Evrópusambandsins í Brussel.
Massimo D'Alema, utanríkisráðherra Ítala, sagði að Ítalir muni hefja undirbúning að því að viðurkenna Kosov og Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði að þýska ríkisstjórnin muni koma saman til fundar á miðvikudag og þar yrði væntanlega ákveðið að viðurkenna sjálfstæði Kosovo.
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði eftir fund utanríkisráðherra Evrópusambandsríkja í Brussel í dag, að mikill meirihluta aðildarríkjanna muni viðurkenna sjálfstæði Kosovo með einum eða öðrum hætti á næstu vikum. Sagði hann Svía muni gera það innan þess tíma.
Bildt bætti við, að Evrópusambandsríkin myndu jafnframt vísa til þess að Kosovo sé undir alþjóðlegu eftirliti.