Norðurlönd undirbúa að viðurkenna Kosovo

Finnland og Danmörk eru að undirbúa að viðurkenna sjálfstæði Kosovo, að sögn finnska utanríkisráðuneytisins og danskra fjölmiðla. Segir talsmaður finnska ráðuneytisins, að hafinn sé undirbúningur að því að viðurkenna Kosovo, sem lýsti yfir sjálfstæði í dag. Sá undirbúningur muni væntanlega taka nokkrar vikur.

Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði við Ritzaufréttastofuna, að Danir áformuðu að viðurkenna Kosovo ásamt 12-15 öðrum Evrópusambandsríkjum, væntanlega á morgun eða miðvikudag. 

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði fyrr í dag að Svíar ætluðu að viðurkenna Kosovo á næstu vikum. Norsk stjórnvöld sögðust í dag myndu taka afstöðu til málsins á næstu dögum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði við Morgunblaðið í gær, að hún hefði ekki tekið formlega afstöðu til þessa máls en á næstunni yrði metið hvað Ísland gerði í þessu tilliti. Hins vegar myndi Ísland ekki skera sig úr alþjóðasamfélaginu og því sem Evrópa gerði í þessum efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert