Flokksformaður stjórnarflokks Pakistans, Chaudry Shujaat Hussain, hefur tapað þingsæti sínu samkvæmt talningu í þingkosningunum í landinu. Hussain er fyrrum forsætisráðherra og náinn bandamaður forsetans Pervez Musharraf, er talið er að þetta geti þýtt að flokkur Musharraf hafi beðið afhroð í kosningunum.
Hussain missti þingsæti sitt í Gujrat fyrir frambjóðanda stjórnarandstöðuflokks Benazir Bhutto, sem myrt var í desember sl. Sjónvarpsstöðvarnar Dawn News og Aaj sögðu frá þessu og miðast niðurstöðurnar við bráðabirgðatölur.
Hussain hefur einnig boðið sig fram í öðru kjördæmi en tap hans í heimahéraði sínu er sagt áfall fyrir flokkinn.
Kjörsókn í þingkosningunum í Pakistan var dræm, aðeins um 40% Talning hófst síðdegis en ekki er búist við því að úrslit liggi fyrir fyrr en á morgun.