Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa beðið yfirvöld í Sádi Arabíu um að stöðva aftöku konu sem hefur verið sakfelld fyrir galdra. Í bréfi til Abdullah konungs segja samtökin að Fawsa Falih hafi verið neydd til játningar og að brotið hafi verið á lagalegum réttindum hennar.
Á fréttavef BBC kemur fram að Fawsa sem er ólæs, hafi verið handtekin af trúarlögreglu árið 2005, og að hún hafi verið barin við yfirheyrslu og neydd til þess að setja fingrafar sitt við játningu sem hún gat ekki lesið. Segja samtökin að játningin hafi ekki heldur verið lesin upp fyrir Fawsu, og að brotið hafi verið á lagalegum réttindum hennar. Fawsu hafi t.d ekki verið heimilað að vera viðstödd öll réttarhöldin.
Samtökin segja að réttað hafi verið yfir Fawsu fyrir óskilgreindan glæp sem galdur er og að undirstaða sakfellingar hennar hafi verið staðhæfingar frá vitnum sem telja að hún hafi lagt á sig álög. Fawsa var m.a sökuð um að hafa lagt álög á mann sem sagði hana hafa gert sig getulausan.
Biðja samtökin Abdullah konung um að aflétta dómnum í ljósi þess að brotið hafi verið á rétti hennar.