Serbneska þingið „ógilti" í kvöld einróma sjálfstæðisyfirlýsingu Kósóvó og sagði hana brjóta gegn fullveldi Serbíu. 225 þingmenn af 250 voru mættir til þingfundar og samþykktu allir ályktunina.
Þá sagði í yfirlýsingunni að yfirráð Serbíu yfir Kósóvó væru tryggð af stjórnarskrá landsins, stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, ályktun Sameinuðu þjóðanna númer 1244 og alþjóðalögum og því þýddi sjálfstæðisyfirlýsingin einhliða úrsögn hluta af Serbíu og væri þar af leiðandi ekki gild.
Þá var ákvörðun Evrópusambandsins um að senda öryggissveitir til Kósóvó einnig ógilt.
Kósóvó hefur verið undir stjórn Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1999 þegar serbneski herinn var rekinn á brott frá Kósóvó. Evrópusambandið hefur samþykkt að senda 2.000 manna herlið til landsins til að tryggja öryggi íbúa þar.