Samstarfsráð ríkja við Persaflóa hafa hvatt Dani til að grípa til aðgerða vegna endurbirtinga á Múhameðs-skopmyndinni svokölluðu. Í bréfi frá ríkjunum segir að birtingin, sem vakti mótmæli bæði í Danmörku og Miðausturlöndum, hafi verið ögrandi og ýti undir öfgahyggju.
GCC, samstarfsráð Persaflóaríkja stendur saman af sameinuðu arabísku furstadæmunum, Bahrain, Sádí Arabíu, Oman, Qatar og Kuwait. Abdel-Rahman al-Atiyah,talsmaður GCC varar við því að aðgerðir sem túlkaðar séu sem móðgun við spámanninn Múhameð hafi neikvæð áhrif á samskipti milli mismunandi trúarhópa.
„Þetta eykur öfgahyggju, sem Íslam fyrirlítur og berst gegn."
Dönsk blöð ákváðu að birta aftur teikningu Kurt Westergaard af Múhameð spámanni til að lýsa stuðningi við teiknarann eftir að upp komst um áætlun um að myrða hann. Teikning Westergaard af spámanninum með sprengju í vefjarhetti sínum vakti mikinn úlfaþyt árið 2005 þegar dagblaðið Jyllands Posten birti tólf skopteikningar af Múhameð.
Endurbirtingin vakti mikil mótmæli, einkum í Danmörku, en þar voru kveiktir tugir elda á götum úti í síðustu viku og um helgina í kjölfar birtingarinnar.