Lögreglan í Suður-Wales fann 16 ára unglingsstúlku, Jennu Parry eftir að hún framdi það sem talið er vera sjálfsvíg úti í skógi í grennd við þorpið Cefn Cribwr skammt frá bænum Bridgend. Parry er 17. unglingurinn í Bridgend og nágrenni sem framið hefur sjálfsvíg á þessu ári.
Samkvæmt fréttavef BBC dóu tveir frændur á unglingsaldri frá Bridgend með tveggja daga millibili í síðustu viku. Lögreglan segir að ekkert bendi til þess að tengsl séu á milli þessa sjálfsvíga.
Til stóð að tilkynna um forvarnarátak á svæðinu í dag en hlutfall sjálfsvíga ungs fólks þykir óvenjuhátt í samfélagi með um 130 þúsund íbúa.