Viðskiptabanni ekki létt af Kúbu í bráð

John Negroponte, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að Bandaríkin muni ekki aflétta viðskiptabanni af Kúbu á næstunni þótt Fídel Kastró hafi í dag sagt af sér embætti forseta landsins.

Spurningu blaðamanna um hvort stefna Bandaríkjastjórnar gagnvart Kúbu muni breytast í ljósi síðustu atburða sagði Negroponte: „Ég get ekki ímyndað mér að það gerist í bráð."

Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sem er staddur í Afríku, sagði við blaðamenn í dag að hann vonaðist til að afsögn Kastrós muni leiða til lýðræðis á Kúbu.

Kastró, sem er 81 árs að aldri, hefur verið forseti Kúbu í tæpa hálfa öld. Árið 2006 afsalaði hann sér völdum tímabundið til Raúls bróður síns vegna veikinda. Hann hefur ekki komið fram opinberlega síðan.

Grein um Kastró

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert