3 létust og 25 særðust í skjálfta í Indónesíu

Þrír létu lífið og að minnsta kosti tuttugu og fimm eru alvarlega særðir eftir jarðskjálfta sem varð í morgun í Aceh héraði í Indónesíu.  Skjálftinn mældist 7,5 á Richter og kom af stað flóðbylgjuviðvörun.

Bandaríska jarðvísindastofnunin sagði neðanjarðarskjálftann hafa orðið klukkan 8:08 í morgun um 312 kílómetra suðvestur af höfuðborg Súmötru, Medan, á 42 kílómetra dýpi. 

Eftirskjálftar mældir 5,5 og 3,5 á Richter komu stuttu síðar.  Þrír létu lífið og tuttugu og fimm særðust í bænum Sinabang á eyjunni Simeulue, vestur af Súmötru.  Samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar, eyðilögðust margar byggingar og fólk flúði til fjalla.

Flóðbylgjuviðvörunarstöð á Hawaii-eyjum gaf út viðvörun um að flóðbylgja gæti skellt á strendur í 100 kílómetra radíus frá skjálftamiðjunni.

Taíland gaf einnig út flóðbylgjuviðvörun sem var svo aflétt klukkustund síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert