Njósnahnöttur skotinn niður í nótt

Bandaríska herskipið USS Lake Erie ætlar í nótt að freista þess að skjóta niður ónýtan  njósnahnött sem óttast er að muni hrapa til jarðar í byrjun mars.

60 milljónir Bandaríkjadala kostar að skjóta niður hnöttinn, en helsta ástæða þess að ætlunin er að skjóta hann niður áður en hann fellur sjálfur til jarðar er sú að hann inniheldur tæplega hálft tonn af hættulegu eldsneyti sem myndað getur eiturgas.

Ætlunin er að skjóa á hnöttinn þegar hann er um 250 kílómetra frá jörðu.

Margir hafa lýst furðu sinni yfir því að ætlunin sé að skjóta niður hnöttinn þar sem afar ólíklegt þykir að hann lendi nærri byggðu bóli. Rússar hafa sakað Bandaríkjamenn um að nota aðgerðina sem yfirskin til að reyna eldflaugavarnir sínar, en aðrir hafa leitt líkur að því að ætlunin sé að sýna Kínverjum fram á hernaðarmátt Bandaríkjanna. Kínverjar skutu á síðasta ári niður ónýtt veðurgervitungl til að reyna varnir sínar.

Bandarísk stjórnvöld neita þessu alfarið og segjast eingöngu vera að reyna að afstýra hættu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert