Þrjú Afríkulönd hafa tekið sig saman um að vernda síðustu 700 górilluapana í heiminum. Löndin hafa skuldbundið sig til að vinna saman í áratug að verndun apanna, en þeim fækkar svo hratt að talið er að verkefnið geti verið síðasta tækifærið til að bjarga górillunum frá útrýmingu.
Um 380 dýr búa í Virunga þjóðgarðinum þar sem landamæri Kongó, Úganda og Rúanda liggja saman. Einnig búa um 300 dýr í nærliggjandi skógi í Úganda. Hafa löndin þrjú samþykkt að vinna saman að verndun apanna, m.a. með því að sannfæra íbúa svæðisins um að verndun þeirra borgi sig en ferðamenn greiða árlega sem nemur 300 milljónum króna fyrir að skoða apana.
Margt gerir að verkum að aparnir eru í útrýmingarhættu. Ófriður hefur verið á heimaslóðum þeirra um áratugi og hefur stríðsrekstur truflað mjög lífshætti þeirra, þá herja veiðiþjófar á svæðið og selja líkamshluta til Kína þar sem trúað er á lækningamátt górilluapa.
Einnig hefur fjöldi apa látist úr ebóla veirunni og verkamenn sem starfa við ólöglegan námugröft hafa veitt þá sér til matar.