McCain sver af sé ástarsamband

Vicki Iseman
Vicki Iseman AP

John McCain, sem sækist eftir því að verða forsetaefni bandarískra repúblíkana í kosningunum í haust, og samstarfsmenn hans hafa alfarið vísað á bug staðhæfingum þess efnis að hann hafi átt í ástarsambandi við kynningarfulltrúann Vicki Iseman fyrir átta árum. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Segir McCain ekkert hæft í sögusögnunum og að einungis sé um rætna áróðursherferð að ræða. Greint er frá því í bandaríska blaðinu The New York Times í dag að nánustu samstarfsmenn McCain hafi haft svo miklar áhyggjur af því að náið samband þeirra spyrðist út að þeir hafi reynt að banna Iseman að hitta hann er hann sóttist fyrst eftir útnefningu sem forsetaefni repúblíkana árið 2000.

Auk þess sem McCain, sem er 71 árs, er sagður hafa átt í ástarsambandi við Iseman, sem er 32 ára, er hún sögð hafa notfært sér kynni sín við hann til að koma málefnum viðskiptavina sinna á framfæri í öldungadeild Bandaríkjaþings en McCain var þá forseti deildarinnar.

Fram kemur í The New York Times að blaðamenn blaðsins hafi unnið að rannsókn málsins mánuðum saman og komist að því að umræddir viðskiptavinir hennar hafi gefið þúsundir Bandaríkjadala í kosningasjóð hans. Þá hafi blaðamennirnir heimildir fyrir því að hún hafi verið tíður gestur á skrifstofu hans á árunum 1999 til 2000 og að hún hafi farið með honum í einkaþotu í kvöldverðarboð í Flórída.

„Það er synd að The New York Times skuli hafa farið niður á það plan að taka þátt í slíkri ófrægingarherferð,” segir Jill  Hazelbaker, talskona McCain. „Hann hefur aldrei brugðist trausti almennings. Hann hefur aldrei veitt ákveðnu málefni eða ákveðnum kynningarfulltrúa óeðlilega fyrirgreiðslu  og hann mun ekki sætta sig við það að ómerkileg ófrægingarherferð dragi athyglina frá þeim málefnum sem þessar kosningar snúast um. Bandaríkjamenn eru hundleiðir á slíkum skítastjórnmálum.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert