Dæmdur fyrir að þiggja mútur

Klaus Volkert
Klaus Volkert Reuters

Dómstóll í Þýskalandi hefur dæmt fyrrum yfirmann stéttarfélags starfsmanna hjá Volkswagen, Klaus Volkert, í tveggja ára og níu mánaða fangelsi fyrir að að hafa þegið mútur en á síðasta ári viðurkenndi framkvæmdastjóri hjá Volkswagen, Peter Hartz, að hafa greitt Volkert mútur.

Klaus Volkert var fundinn sekur um fjársvik í 48 liðum en hann þáði greiðslur upp á tæplega tvær milljónir evra frá Hartz. Þar af runnu um 400 þúsund evrur til fyrrum ástkonu Volkert. Tók dómarinn ekkert mark á yfirlýsingu lögfræðings  Volkert um að ekkert athugavert væri við greiðslurnar. Sagði dómarinn við dómsuppkvaðningu í morgun að Volkert hafi verið fullkunnugt um að hann ætti engan rétt á greiðslunum og að hann hefði ítrekað farið fram á frekari greiðslur.

Í janúar í fyrra var Hartz dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir mútugreiðslurnar og gert að greiða 576 þúsund evrur í sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka