Þrátt fyrir að Fídel Kastró hafi stigið af valdastóli fyrir þremur dögum er hann ekki hættur að tjá skoðanir sínar. Hann kallaði eftir því í dag að Bandaríkin breyti langtímastefnu sinni gagnvart Kúbu, þ.e. hvað varðar viðskiptabannið sem hefur verið ríkjandi.
Kastró segir í grein að hann hafi ætlað sér að taka sér frí frá skrifum í nokkra daga eftir að hann tilkynnti um að hann myndi láta af völdum. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.
Hann segir að viðbrögð heimsins við fréttunum um brotthvarfið, m.a. áköll eftir því að Kúba verði frelsuð, hafi neytt hann til að beina spjótum sínum að Bandaríkjunum, sem hann kallar hugmyndafræðilegan óvin sinn.
„Ég hafði gaman að því að sjá þá vandræðalegu stöðu sem allir bandarísku forsetaframbjóðendurnir eru í,“ skrifar Kastró í grein sem var birt í málgagni Kommúnistaflokksins, Granma.
„Þeim fannst þau, hvert á fætur öðru, vera skuldbundin til að gera kröfur á hendur Kúbu svo þeir glötuðu ekki atkvæðum,“ sagði Kastró.
„Breytingar, breytingar, breytingar!“ hrópuðu þau í kór. Ég er sammála þeim, „breytingar!“, en þær verða að eiga sér stað í Bandaríkjunum,“ skrifaði fyrrum Kúbuleiðtoginn.