Saka breska hermenn um fjöldamorð

Breskir hermenn í Írak.
Breskir hermenn í Írak. Reuters

Lögmenn fimm Íraka, sem hafa sakað breska hermenn um að hafa framið fjöldamorð og stundað pyntingar, hafa kallað eftir því að lögreglan hefji rannsókn á málinu. Lögmennirnir segja þetta vera hræðilegan blett á sögu breska hersins.

Lögmennirnir Phil Shiner og Martyn Day, sem hafa nokkrum sinnum áður höfðað mál á hendur breska hernum vegna atburða í Írak, birtu yfirlýsingar fimmmenninganna í dag. Þeir segjast hafa verið handteknir af breskum hersveitum í kjölfar bardaga í suðurhluta Íraks í maí 2004.

Þeir segja hermennina hafa ítrekað barið sig og misnotað. Þeir hafi verið bundnir á höndum og fótum auk þess sem bundið var fyrir augu þeirra. Þá hafi þeir verið neyddir til að afklæðast. Á meðan þeir voru í haldi hersins segjast þeir hafa heyrt af því hvernig bresku hermennirnir með kerfisbundnum hætti pyntuðu og tóku af lífi um 20 aðra fanga.

Martyn Day segir að hann og kollegi hans séu á þeirri skoðun að skjólstæðingar þeirra geti haft rétt fyrir sér og því beri að rannsaka málið. Hann segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort nægar sannanir eigi eftir að finnast, svo hægt verði að höfða dómsmál á hendur einstaka hermanni. Hann bendir hins vegar á að þeirri spurningu muni einungis verða svarað með því að hefja opinbera rannsókn á málinu.

Breski herinn hefur þegar fyrirskipað rannsókn á málinu og komist að þeirri niðurstöðu að enginn hafi gerst sekur um glæpsamlegt athæfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert