Tyrkneski herinn fór yfir landamærin til Íraks í gær til að elta uppi kúrdíska uppreisnarmenn sem sagðir eru hafað leitað skjóls í norðurhluta landsins. Að sögn forsætisráðherra Tyrklands er ekki um meiriháttar heraðgerð að ræða og vonast hann til þess að hermennirnir snúi fljótt heim aftur.
Íraskir embættismenn segjast ekki hafa orðið varir við meiriháttar árásir og þá hafa kúrdískir embættismenn sagt að aðgerðirnar hafi átt sér stað á afskekktu svæði þar sem fáir eru búsettir.
Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, segir að heraðgerðin sé ekki umfangsmikil. „Hersveitir okkar munu koma heim eins fljótt og auðið er eftir að þeir hafa náð markmiðum sínum,“ sagði hann og ítrekaði að liðsmenn Verkamannaflokks Kúrdistans væru einu skotmörk hersins.
Fréttaskýrendur segja að herinn reyni með þessu að einangra uppreisnarmennina og koma í veg fyrir að þeir geti notið Norður-Írak sem vettvang til að gera árásir á tyrkneskri grund.
Bandarísk stjórnvöld fengu að vita af aðgerðum tyrkneska hersins fyrirfram, en þau segjast hafa hvatt Tyrki til að beina aðgerðum sínum einvörðungu að uppreisnarmönnum.
Að sögn talsmanns Bandaríkjahers í Bagdad taka aðeins nokkur hundruð tyrkneskir hermenn þátt í aðgerðunum.