Lokayfirlýsing Hillary Clinton í kappræðum þeirra Baracks Obama í Texas í nótt vakti talsverða athygli en þar sagði hún að hver sem niðurstaðan yrði myndu þau taka henni. „Við njótum mikils stuðnings fjölskyldna okkar og vina. Ég vona að það sama eigi við um bandarísku þjóðina en um það snúast þessar kosningar," sagði hún.
Fréttaskýrendur hafa í dag velt því fyrir sér, hvort Clinton hafi með þessum orðum óbeint verið að viðurkenna, að barátta hennar við Obama um útnefningu sem forsetaefni demókrata, sé töpuð, eða hvort hún henni kunni að hafa tekist að snúa taflinu við. Margir telja þó, að Obama sé kominn á slíka siglingu að Clinton takist ekki að stöðva hann.
Obama hefur unnið sigur í 10 síðustu forkosningum demókrata. Næstu forkosningarnar verða 4. mars í Texas og Ohio.
Kappræðurnar í nótt voru vinsamlegar og snérust m.a. um afstöðu frambjóðendann til Kúbu, heilsugæslu og Íraksstríðið. Clinton sagðist m.a. vera stolt af því að vera á sviðinu með Obama, sem er fyrsti blökkumaðurinn sem á raunverulegan möguleika á að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna.