Bandarísk B-2 sprengjuflugvél fórst

Bandarísk B-2 sprengjuflugvél, ein dýrasta flugvél heims, brotlenti á Kyrrahafseyjunni Guam í gærkvöldi. Er þetta í fyrsta skipti, sem flugvél af þessu tagi hlekkist á með þessum afleiðingum. Tveir flugmenn voru í vélinni en þeim tókst að skjóta sér út áður en vélin lenti á jörðinni og sluppu ómeiddir.

Fram kemur á fréttavef BBC, að vélin brotlenti skömmu eftir að hún fór á loft frá Anderson herstöðinni á Guam laust fyrir klukkan 1 í nótt að íslenskum tíma. Fólk safnaðist saman þar sem vélin lenti til að fylgjast með. 

Áætlað er að B-2 flugvélar kosti um 1,2 milljarða dala, jafnvirði um 80 milljarða króna. Hún getur borið bæði kjarnavopn og hefðbundin vopn. Bandaríski flugherinn ræður yfir 21 slíkri vél en þær hafa m.a. verið notaðar við hernaðaraðgerðir í Afganistan, Írak og Kosovo. 

Vélarnar geta flogið 11.100 km án þess að taka eldsneyti. Þá eru þær torséðar, þ.e. þær sjást ekki á hefðbundnum ratsjám. 

B-2 sést ekki á ratsjám.
B-2 sést ekki á ratsjám. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert