Hvetur Bandaríkin til að ógilda viðurkenningu á sjálfstæði Kosovo

Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu.
Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu. mbl.is

Forsætisráðherra Serbíu, Vojislav Kostunica, hvetur Bandaríkjamenn til þess að ógilda viðurkenningu þeirra á sjálfstæði Kosovo, og til þess að staðfesta Serbíu sem fullvalda ríki, að því er kom fram á serbnesku sjónvarpstöðinni RTS.

„Bandaríkjamenn eiga að ógilda ákvörðunina um að viðurkenna sjálfstæði falsríkis á yfirráðasvæði Serbíu og gera öryggisráði SÞ kleift að staðfesta gildi ályktunar 1244, til þess að snúa aftur til fyrra ástands," sagði Kostunica.

Ályktun 1244 batt enda á ágreininginn í Kosovo 1998-1999, og veitti Kosovohéraði talsvert sjálfsforræði undir stjórn SÞ á sama tíma og staðfest var að héraðið væri hluti af Serbíu.

Kostunica sagði Bandaríkjamenn ábyrga fyrir því að tryggja, fyrrum ástand í landinu verði endurvakið, og þar með komist friður og stöðugleiki aftur á í héraðinu.

Kosovo lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu fyrir viku síðan og hafa Bandaríkjamenn og fleiri vestræn ríki viðurkennt sjálfstæði nýja ríkisins. Rússar hafa alfarið lýst yfir að þeir séu andvígir sjálfstæðisyfirlýsingunni.

Fjölmenn mótmæli voru í Belgrad í vikunni þar sem m.a var kveikt í bandaríska sendiráðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert