Clinton gagnrýnir Obama

Hillary Clinton sem sækist eftir útnefningu sem forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins gagnrýndi keppinaut sinn Barack Obama harðlega í gær fyrir bæklinga, sem hann lét dreifa í Ohio.

„Skammastu þín, Barack Obama," sagði Clinton á kosningafundi í Ohio þar sem forkosningar fara fram eftir 10 daga. Sagði hún að Obama notaði aðferðir, sem Karl Rove, fyrrum ráðgjafi Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta, hefði getað verið fullsæmdur af til að afflytja hugmyndir hennar um breytingar á bandaríska heilbrigðiskerfinu.

Obama sagðist hins vegar standa við bæklinginn og sagðist  vera hissa á þeim breytingum, sem orðið hefðu á málflutningi Clinton. 

Obama hefur unnið 11 forkosningar í röð og því verður Clinton að vinna sigra í Ohio og Texas 4. mars til að halda sér á floti. Framboð hennar hefur átt í nokkrum erfiðleikum með að koma fram með svör við mikilli fylgisaukningu Obama en hafa greinilega ákveðið að skerpa gagnrýnina á keppinautinn.

Talið er að Obama hafi tryggt sér 1353 kjörmenn af 2025 sem hann þarf til að hljóta útnefningu flokksins á flokksþingi í ágúst. Clinton hefur 1264 kjörmenn. Alls er kosið um 334 kjörmenn í Texas og Ohio. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert