Musharraf hættir ekki sjálfviljugur

Pervez Musharraf
Pervez Musharraf Reuters

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, hafnaði því í dag að hann myndi láta sjálfviljugur, af störfum sem forseti landsins. Þrír bandarískir þingmenn sem funduðu með forsetanum í síðustu viku hafa ráðlagt honum að hætta sem forseti til að forðast deilur er nýr þingmeirihluti tekur við.

Rashif Qureshi, talsmaður forsetans, sagði í viðtali við Dawn News sjónvarpsstöðina að forsetinn hefði verið kjörinn af pakistanska þinginu, en ekki af bandarískum þingmönnum.

Einn þingmannanna, Joe Biden, sagði í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina fyrir skömmu að hann tryði því að best væri að einblína ekki á gamlar deilur í landinu heldur ætti Musharraf að fá tækifæri til að hætta störfum sem forseti með reisn.

Musharraf hefur verið nær einráður í landinu frá árinu 1999 en í lýðræðislegum kosningum á dögunum beið flokkur hans ósigur og hafa fyrrum stjórnarandstöðuflokkar landsins komið sér saman um meirihlutasamstarf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert