Talibanar hóta fjarskiptafyrirtækjum

Talibanar hafa hótað að sprengja farsímasenda í loft upp í Afganistan ef farsímafyrirtæki samþykkja ekki að slökkva á sendunum um nætur. Segja talibanarnir að Bandaríkjamenn og fjölþjóðaliðið í Afganistan noti farsímamerki til að rekja slóð uppreisnarmanna.

Fjögur farsímafyrirtæki eru í Afganistan og krefjast talibanar þess að slökkt verði á kerfinu milli klukkan fimm síðdegis og þrjú að morgni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem uppreisnarmenn hóta aðgerðum og saka farsímafyrirtækin um að aðstoða Bandaríkjamenn.

Sérfræðingar í fjarskiptum segja hins vegar að bandaríski herinn þurfi ekki á farsímasendunum að halda þar sem gervihnettir séu notaðir til að staðsetja farsíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert