Björguðu dreng og fundu lík

Lík drengjanna sjást hér flutt af vettvangi.
Lík drengjanna sjást hér flutt af vettvangi. Reuters

Slökkviliðið í Puglia á Ítalíu bjargaði 13 ára dreng sem fallið hafði niður í brunn í dag. Eftir að drengnum hafði verið bjargað komu í ljós líkamsleifar tveggja drengja sem saknað hafði verið frá júní 2006. Faðir drengjanna hefur setið í fangelsi, sakaður um að hafa myrt þá.

Drengurinn sem bjargað var hafði verið að spila fótbolta með vinum sínum þegar slysið varð. Honum var bjargað eftir tveggja tíma aðgerðir og hafði hann brákað báða fótleggi. Brunnurinn sem er tuttugu metra djúpur var ekki í notkun.

Þegar björgunarmenn fóru aftur niður brunninn í þeim tilgangi að loka honum uppgötvuðu þeir líkamsleifarnar. Líkin sem fundust eru af bræðrunum  Francesco, 12 ára, og Salvatore Pappalardi, 14 ára, sem hurfu fyrir 18 mánuðum. Bræðurnir sáust síðast lifandi fyrir utan heimili sitt.

Lögreglan segir að unnið sé að rannsókn málsins, reynt verði að komast að því hvort um slys hafi verið að ræða eða hvort þeir hafi verið myrtir. 

Fram kemur á fréttavef Sky að Ítalir hafi setið sem fastast við sjónvarpsskjáinn með öndina í hálsinum árið 1981 þegar björgunarsveitarmenn reyndu að koma sex ára dreng til bjargar sem hafði dottið ofan í brunn skammt frá Róm. Björgunaraðgerðirnar, sem stóðu í 18 klukkustundir, mistókust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert