Leiðtogi þjófagengis handtekinn

Brasilíska lögreglan greindi frá því í dag að hún hafi handtekið meintan höfuðpaur þjófagengis sem stal 70 milljón dölum úr brasilískum banka fyrir tveimur árum. Bankaránið var það stærsta í heiminum á sínum tíma.

Jossivam Alves dos Santos var handtekinn í Brasiliu, höfuðborg landsins. Að sögn lögreglu fór Santos fyrir ráninu árið 2006, en það átti sér stað í borginni Fortaleza. Þjófarnir grófu um 80 metra löng göng til að komast að bankahvelfingunni.

Þjófarnir notuðu skóflur, haka, sagir og bora til að gera gat á steypugólf hvelfingarinnar, sem var úr styrktu stáli og 3,6 metrar á þykkt. Þá notuðu þeir plastfötur, sem þeir höfðu bundið við línu með snúningshjóli, til að ferja peningana úr hvelfingunni.

Ellefu sakborningar hafa þegar verið dæmdir í málinu. Þrátt fyrir það er lögreglan aðeins búin að finna tæplega 10 milljónir dala. Þá grunar lögregluna að fleiri úr þjófagenginu gangi enn lausir.

Nokkrum mánuðum eftir peningastuldurinn var Luis Fernando Ribeiro, sem talinn er vera heilinn á bak við við þjófnaðinn, rænt og hann myrtur, þrátt fyrir að fjölskylda hans hafi greitt mannræningjunum eina milljón dala í lausnarfé. Þá fannst annar meintur þjófur látinn á búgarði.

Bankaránið var það stærsta í skamman tíma því ræningjar stálu rúmlega 90 milljónum dala úr vöruhúsi London á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert