Mannræningjar sem hafa fimm Breta í haldi í Írak hafa krafist þess að breski herinn sleppi níu íröskum föngum sem skipti fyrir Bretana. Þetta kemur fram á myndbandsupptöku sem Al-Arabiya sjónvarpsstöðin birti í dag.
Á myndbandinu sést þegar einum gíslanna var rænt er hann heimsótti íraska fjármálaráðuneytið í Bagdad þann 29. maí sl. Breska utanríkisráðuneytið hefur fordæmt myndbirtinguna.
„Ég heiti Peter Moore. Ég hef verið hér í næstum átta mánuði,“ heyrist einn gíslanna segja. Talið er að myndbandið sé a.m.k. mánaðar gamalt.
„Sleppið þeirra fólki úr fangelsi svo við getum komist heim. Það er ekki flóknara en það,“ segir maðurinn, sem beinir orðum sínum til Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.