Nokkrir hvítir námsmenn í Suður-Afríku hafa verið sóttir til saka fyrir að hafa neytt þeldökka háskólastarfsmenn til að borða mat sem pissað hafði verið á.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að þetta sjáist á myndbandi sem hefur verið birt. Þar sé hvernig nemendurnir skipa fimm eldri starfsmönnum að drekka bjór og framkvæma ýmsar íþróttaþrautir. Þá virðist sem að mennirnir, sem starfa við Free State háskólann, séu látnir borða mat sem einhverjir höfðu kastað vatni á.
Rektor háskólans hefur fordæmt myndbandið harðlega.
Nemendur og starfsmenn skólans hafa mótmælt þessu, og þá hafa námsmannahreyfingar hvatt til mótmæla gegn kynþáttahatri á landsvísu.
Fréttir herma að myndbandið hafi verið tekið upp til að mótmæla fyrirætlunum skólayfirvalda að sameina svarta og hvíta nemendur, sem búa í sama hverfi, í Free State háskólanum.