Mafían á Sikiley vinnur nú að því að endurbyggja sambönd sín við skipulagða glæpastarfsemi í Bandaríkjunum og hefur að undanförnu sent menn vestur um haf til að vinna með bandarískum „fjölskyldum" og endurvinna tengsl sem glatast hafa síðan á níunda áratugnum.
Þetta kemur fram í skýrslu sem ítalska þingið hefur látið gera og byggir m.a. á upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni, FBI.
Sikileyska mafían Cosa Nostra á rætur sínar í glæpastarfsemi á Ítalíu en hefur lengi verið í nánum tengslum við glæpafjölskyldur í Bandaríkjunum sem eiga rætur sínar að rekja til Ítalíu. Mafían er enn umsvifamikil í fíkniefnaheiminum, en vill samkvæmt skýrslunni leita á ný mið.
Segir að bandaríski armur Cosa Nostra stjórni nú m.a. matvælafyrirtækjum og byggingaverktökum en vilji auk þess auka umsvif sín á nýjum sviðum, svo sem fjárhættuspilum á netinu.
FBI hefur staðið í umfangsmiklum aðgerðum í mánuðinum og hefur m.a. handtekið 80 meinta glæpamenn í New York, þar á meðal starfandi yfirmenn Gambino fjölskyldunnar, sem vitað er að tengjast Sikileyjarmafíunni.
Angela Napoli, talsmaður ítalskrar þingnefndar um mafíuna, segir að ef ráða eigi niðurlögum Cosa Nostra verði ítalskir stjórnmálamenn að beita sér frekar en þegar er gert og að fleiri vitni verði að sýna nægilegt hugrekki til að koma fram.