Fjölpóstur sem gengið hefur í tölvupósti hefur valdið töluverðu uppþoti bæði í Bandaríkjunum og Svíþjóð en í bréfinu hótar óþekktur aðili viðtakanda lífláti verði hann ekki við fjárkröfum hans. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Einstaklingur, sem þú álítur vin þinn, vill þig feigan. Hann hefur varið miklum fjármunum til þess og látið okkur hafa nafn þitt, mynd af þér og aðrar nauðsynlegar upplýsingar,” segir m.a. í bréfinu. „Á meðan ég skrifa þetta er fólk á mínum vegum að fylgjast með þér.”
Þá er viðtakanda gefinn kostur á að greiða 10.000 Bandaríkjadollara fyrir að fá að halda lífi auk upplýsinga um það hver vilji hann feigan. „Við höfum aldrei nokkru sinni séð nokkuð þessu líkt. Það er alveg ljóst að þetta vekur ótta. Við höfum ekki hugmynd um það hver stendur hér að baki,” segir Welden Tucker, lögreglustjóri í i Bandera County í Bandaríkjunum.
Þá hefur VG Nett eftir alríkislögreglumanninum Brandon Simpson að einn móttakandi slíks bréfs hafi svarað póstinum og fengið svar þar sem viðkomandi bað hann um að láta sig í friði og hótaði að öðrum kosti að leita til yfirvalda. Skömmu síðar fékk viðkomandi bréf frá öðru netfangi þar sem fram komu upplýsingar um vinnustað hans sjálfs og nafn dóttur hans.
Lögregla í Svíþjóð gerir þó minna úr málinu og segir líklegast að um nýja tegund svonefndra Nígeríubréfa sé að ræða.