Telja sig hafa fundið nasistafjársjóð

Ljósmynd af Rafsalnum tekin fyrir síðari heimsstyrjöld
Ljósmynd af Rafsalnum tekin fyrir síðari heimsstyrjöld Árvakur/Wikimedia Commons

Fjársjóðsleitarmennirnir Heinz-Peter Haustein og Christian Hanisch leita nú að miklum auðæfum sem nasistar eru sagðir hafa falið í helli í Þýskalandi við lok síðari heimsstyrjaldar. Meðal þess sem þeir telja að leynist í hellinum eru mörg tonn af gulli, og Rafsalurinn svokallaði sem stolið var nánast í heilu lagi í Pétursborg árið 1941.

Hanisch segist hafa komist yfir nákvæma staðsetningu fjársjóðsins eftir að faðir hans lést í október í fyrra. Faðirinn var flugmaður í Luftwaffe, þýska flughernum meðan á styrjöldinni stóð, í hersveit þeirri sem faldi gull, listmuni og silfur fyrir Hitler.

Á blaðamannafundi þar sem leitin var kynnt sagði Hanisch að merki frá leitartækjum bentu til þess að eðalmálmar sem aðeins geta verið gull eða silfur,  væru til staðar á staðnum sem um ræðir, í helli rúmum níu metrum undir yfirborði jarðar.

Haustein, sem leitað hefur að Rafsalnum í tólf ár, segist sannfærður um að stóran hluta herbergisins sé að finna á staðnum.

Rafsalurinn var á sínum tíma kallaður áttunda undur veraldar, hann var alsettur plötum úr rafi, alls rúmlega sex tonnum, sem skreyttar voru gulli og speglum. Herbergið var fyrst sett upp í Charlottenborg höllinni í Berlín en Pétur mikli, Rússlandskeisari, hreifst svo af því að Friðrik Vilhjálmur I, Prússakonungur, gaf keisaranum það árið 1716, m.a. til að tryggja bandalag Prússa og Rússa gegn Svíum.

Adolf Hitler lét svo stela öllu úr herberginu úr Katrínarhöllinni í Pétursborg árið 1941, það var þá flutt til Königsberg, sem nu heitir Kaliningrad, en hvarf svo sporlaust árið 1945.

Verðmæti fjársjóðarins er talið nálægt 80 milljörðum íslenskra króna. Hægt hefur gengið að grafa eftir fjársjóðnum þar sem leitarmennirnir og stjórnvöld óttast að hellirinn geti fallið saman, en einnig að nasistar hafi komið fyrir sprengjum eða öðrum hættulegum gildrum.

Þeir Haustein og Hanisch vonast þó til að hægt verði að komast niður í hellinn nálægt páskum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka