Bush setur ofan í við Obama

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt Barack Obama, sem sækist eftir því að verða forsetaefni demókrata í forsetakosningunum í haust, fyrir þau ummæli hans að hann væri reiðubúinn til viðræðna við Raul Castro, nýjan forseta Kúbu, væri hann forseti Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

„Ég er ekki að segja að það verði aldrei réttur tími til viðræðna. Ég held því hins vegar fram að nú sé ekki rétti tíminn. Það myndi senda röng skilaboð,” sagði Bush á fundi með blaðamönnum í gær. „Það gæfi til kynna viðurkenningu á eim sem hafa fótumtroðið mannréttindi og mannlega reisn.” Þá sagði hann engan mun vera á Raul Castro og bróður hans Fidel Castro.

Bush var einnig spurður um þau ummæli Obama á fundinum að hann telji rétt að  kalla bandaríska herliði heim frá Írak en að honum finnist þó koma til greina að  senda herlið þangað á ný, reynist þörf á því til að koma í veg fyrir að al Qaeda samtökin komi sér upp bækistöðvum þar.

Bush sagði bandaríska hermenn einmitt hafa barist í fjögur ár í Írak til að koma í veg fyrir það. Þá sagðist hann telja að Obama ætti að einbeita sér að kosningabaráttu sinni við Clinton fremur en að tjá sig fram og til baka um hugsanleg forsetaverk sín enda hafi hann enn ekki verið útnefndur forsetaefni demókrata.

Ummælin eru fyrstu beinu ummæli Bush um það sem frambjóðendur hafa sagt í kosningabaráttunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert