Hillary Rodham Clinton, sem sækist eftir því að verða forsetaefni bandarískra demókrata í kosningunum í haust, þykir á undanförnum dögum hafa lagt aukna áherslu á kynferði sitt í kosningaræðum sínum og er hún sögð vonast til að atkvæði kvenna rétti hlut hennar í væntanlegum prófkjörunum í Ohio og Texas á þriðjudag.
„Ég er himin lifandi yfir því að vinna að því að verða fyrsti kvenforsetinn. Ég tel að það myndi marka tímamót bæði í heimalandi okkar og um allan heim,” sagði hún í Cleveland, fyrr í þessari viku en nokkuð er frá því hún vísaði síðast til kynferðis síns í kosningabaráttu sinni.
Cinton hefur nú ekki sigrað í prófkjöri í mánuð en Barack Obama, keppinautur Clinton um tilnefningu sem forsetaefni demókrataflokksins, hefur sigrað í ellefu prófkjörum í röð.
Clinton hefur smávægilegt forskot á Obama í Ohio samkvæmt skoðanakönnunum en Obama hefur smávægilegt forskot í Texas.
Í Ohio liggur stór hluti fylgis hennar meðal kvenna en í Texas er munurinn á fylgi kvenna við Clinton og Obama mun minni.