Faðir yfirgefinnar stúlku frá Kína handtekinn

Qian Xue Xue.
Qian Xue Xue. AP

Kínverskur maður, sem er sakaður um að hafa myrt eiginkonu sína og yfirgefið þriggja ára dóttur sína á lestarstöð í Ástralíu, hefur verið handtekinn í Bandaríkjunum.

Fram kemur á fréttavef BBC að lík konu mannsins fannst í bíl fyrir utan heimili þeirra í Auckland á Nýja-Sjálandi í september en dóttir hans, Qian Xun Xue, fannst sitjandi ein undir rúllustiga á lestarstöð í Melbourne, þar sem hann yfirgaf hana áður en hann flaug til Los Angeles.

Hópur sex Kínverja sem eru búsettir í Bandaríkjunum handsömuðu Nai Yin Xue í Atlanta í Georgíu og héldu honum með því að binda um hendur hans og ökkla.  Að sögn lögreglu töluðu Kínverjarnir litla ensku en fólkið benti lögreglu á mynd úr dagblaðsgrein og færðu henni svo manninn.

Búist er við að Nai Xue verði sendur til Auckland þar sem hann verður ákærður fyrir morð.  Mikil umfjöllun var um málið um allan heim en amma stúlkunnar í Kína gaf sig fram við yfirvöld og Qian Xue var send til hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka