Ný kenning um morðingja Palmes

Olof Palme.
Olof Palme. AP

Sænsk­ur blaðamaður leiðir að því lík­um í nýrri bók, að sá sem myrti Olof Palme, for­sæt­is­ráðherra Svía, árið 1986, hafi verið leigu­morðingi og fas­ist­a­leiðtogi frá Chile, sem var stadd­ur í Stokk­hólmi þegar morðið var framið. Fjallað er um þetta í danska blaðinu Politiken í dag.

Blaðamaður­inn, And­ers Leopold, seg­ir í bók sinni, Det svenska trädet skall fällas, að Roberto Thieme, sem nú er 65 ára að aldri, hafi á þess­um tíma verið leiðtogi fas­ista­sam­tak­anna Pat­ria y Li­bertad, sem m.a. nutu fjár­stuðnings frá banda­rísku leyniþjón­ust­unni CIA. Thieme hafi einnig verið leigu­morðingi í ör­ygg­isþjón­ustu Chile.

Eft­ir að her­for­ingja­stjórn Augu­stos Pin­ochelts náði völd­um í Chile á fyrri hluta átt­unda ára­tug­ar síðustu ald­ar veitti Svíþjóð mörg­um póli­tísk­um flótta­mönn­um frá Chile hæli. Olof Palme var því ekki efst­ur á vin­sældal­ista her­for­ingj­anna.

Palme sjálf­ur sagði í viðtali við Svenska Dag­bla­det  árið 1979, að hann hafi fengið að vita það árið 1975, að hann væri á dauðal­ista her­for­ingja­stjórn­ar­inn­ar í Chile. Leopold seg­ir í bók sinni, að her­for­ingja­stjórn­in hafi ráðið Roberto Thieme til að myrða Palme.

Thieme og fleiri sam­starfs­menn hans í Pat­ria y Li­bertad skrifuðu árið 2004 und­ir yf­ir­lýs­ingu þar sem þeir báðust af­sök­un­ar á þeim hörm­ung­um sem þeir hefðu kallað Chi­le­búa á stjórn­ar­ár­um her­for­ingj­anna. 

Olof Palme var for­sæt­is­ráðherra Svíþjóðar á ár­un­um 1969-1976 og aft­ur frá 1982 til 1986 þegar hann var skot­inn til bana á mót­um Svea­vä­gen-Tunn­el­gat­an í Stokk­hólmi. Morðið hef­ur aldrei verið upp­lýst en lík­leg­ast hef­ur þótt, að sænsk­ur smáglæpa­maður hafi orðið hon­um að bana.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert