Harry prins er kominn til Bretlands eftir að herþjónustu hans í Afganistan lauk skyndilega er vefsíðan Drudge Report skýrði frá veru hans þar og rauf þannig fjölmiðlabann sem sett hafði verið á til að vernda prinsinn.
Harry lenti samkvæmt fréttavef BBC á Brize Norton herflugvelli breska flughersins í Oxfordskíri klukkan hálf tólf í dag.
Hann kom með herflutningavél ásamt 170 öðrum hermönnum sem lokið höfðu skyldudvöl sinni í Afganistan.
Faðir hans, Karl Bretaprins og bróðir hans William prins tóku á móti honum.
Harry sagði fjölmiðlum að hann hefði notið þess að vera í Afganistan og fjarri breskum fjölmiðlum. Hann sagði að hann myndi gjarnan vilja taka þátt í fleiri hernaðaraðgerðum á fremstu víglínu.