„Ísraelski herinn tekur nú þátt í viðamiklum aðgerðum gegn palestínskum öfgahópum á norðurhluta Gaza," sagði aðstoðarvarnarmálaráðherra Ísraela, Matan Vilnai, í útvarpsviðtali í morgun. Hið minnsta hafa 26 Palestínumenn látist í átökunum í morgun, þar á meðal eru 4 börn.
„Við notum að mestu leyti flugherinn í þessum aðgerðum þó að eitthvað sé þarna af landher," sagði Vilnai en hann neitaði því að þetta væri upphafið á hernaði sem stundaður væri með það fyrir augum að hernema hluta af Gaza á nýjan leik.
hann sagði að þessar aðgerðir væru svar við eldflaugaárásum frá Gaza á Ísrael.
Samkvæmt ísraelskum fjölmiðlum hefur um 30 eldflaugum verið skotið á Ísrael frá Gaza í morgun og særðust þrír óbreyttir borgarar þar á meðal tvö börn.