Næst æðsti yfirmaður Farc féll í átökum

Næst æðsti yfirmaður kólumbísku skæruliðasamtakanna Farc lést í átökum við herinn í dag. Raul Reyes, sem var talsmaður Farc og sá sem talið var að tæki við sem leiðtogi samtakanna, lést þegar loftárás var gerð á liðsmenn samtakanna við landamæri Ekvador í dag. Varnarmálaráðherra Kólumbíu, Juan Manuel Santos, staðfesti það á blaðamannafundi í dag.

Að sögn Santos er þetta mesta áfall sem skæruliðasamtökin hafa orðið fyrir. Alls létust 17 skæruliðar og einn hermaður í aðgerðinni en á vegum stjórnvalda tók flugherinn og landgönguliðar þátt í aðgerðinni auk lögreglu, að sögn Santos.

Aðgerðin var studd af bandarískum stjórnvöldum en Bandaríkjamenn höfðu lagt 5 milljónir Bandaríkjadala til höfuðs Reyes. Hann ásamt sex öðrum skipaði æðsta ráð Farc. Dauði Reyes, sem hét réttu nafni Luis Edgar Devia Silva, er enn eitt áfallið fyrir skæruliðasamtökin frá því Alvaro Uribe tók við völdum sem forseti Kólumbíu. Uribe hefur ekki hikað við að leita til Bandaríkjamanna eftir aðstoð gegn skæruliðasamtökunum.

Þann 7. febrúar sl. kom fólk, sem ættað er frá Kólumbíu en býr hér á landi, saman í miðborg Reykjavíkur til að mótmæla marxísku skæruliðasamtökunum Farc í ættlandi sínu og þeim glæpa- og hryðjuverkum, sem þau stunda þar. Voru sams konar mótmæli haldin í borgum víðs vegar um heim og þá ekki síst í Kólumbíu. Þar var mótmælt í 45 borgum og langmest voru mótmælin í höfuðborginni, Bogota. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert