Neyðarástandi lýst í Armeníu

Stjórnvöld í fyrrum sovétlýðveldinu Armeníu lýstu í kvöld yfir neyðarástandi eftir að spenna vegna umdeildra forsetakosninga braust út í blóðugum átökum milli mótmælenda og óeirðalögreglu í höfuðborginni Jerevan.

Neyðarástandið verður í gildi í borginni til 20. mars, samkvæmt tilskipun sem Robert Kocharian, forseti, gaf út.

Mótmælendur köstuðu eldsprengjum og grjóti á lögreglu sem svaraði með því að beita táragasi. Einnig skutu lögreglumenn af byssum upp í loftið. Eldur var borinn að bílum og fólk lét greipar sópa í verslunum í miðborginni.

Mótmæli hafa verið í Jerevan í 11 daga samfellt frá því forsetakosningar fóru fram 19. febrúar. Alþjóðlegir eftirlitsmenn sögðu, að kosningarnar hefðu að mestu uppfyllt alþjóðleg lýðræðisskilyrði. Serzh Sarkisian, forsætisráðherra og bandamaður Kocharians, sigraði þar Levon Ter-Petrosian, frambjóðanda stjórnarandstöðunnar og fyrrum forseta landsins. Hann sagðist í kvöld hafa verið settur í stofufangelsi. 

Eldar loga í lögreglubílum í miðborg Jerevan.
Eldar loga í lögreglubílum í miðborg Jerevan. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert