Yfirmenn bresku leyniþjónustunnar reyndu að átta sig á athöfnum Adolfs Hitlers, leiðtoga þýskra nasista, með því að rýna í stjörnuspána hans. Þetta kemur fram í skjölum sem breska þjóðskjalasafnið hefur gert opinber.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að Ungverjinn Ludwig von Wohl hafi sannfært yfirmenn í bresku leyniþjónustunni að hann gæti endurskapað stjörnuspár Karl Ernst Kraffts, sem var einkastjörnuspekingur Hitlers. Wohl hélt því fram að ef bresk stjórnvöld vissu hvaða ráðleggingar Hitler væri að fá frá stjörnuspekingnum, þá gætu Bretar áttað sig á næsta leik nasistaleiðtogans.
Breska öryggisþjónustan MI5 hafði hins vegar varað við því að Von Wohl væri ekkert annað en svikahrappur.
Wohl var afar umdeildur maður. Í augum margra í breska hernum var hann ekkert annað en bjáni og loddari. Aðrir voru á því að hann væri afar kænn og að hann gerði sér grein fyrir hugsunarhætti nasistaleiðtoga.
Í dag segja sagnfræðingar að Hitler hafi veitt stjörnuspám litla sem enga eftirtekt.