Greint var frá því í Ísrael í morgun að Katyusha flugskeyti hafi hafnað nærri heimili Avi Dichter, ráðherra almannaöryggismála í Ísrael í bænum Ashkelon fyrir nokkrum dögum en fréttabanni af atvikinu var aflétt í dag. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Tveir Palestínumenn létu lífið og tveir slösuðust í loftárásum Ísraelshers á Gasasvæðið í morgun. Talsmaður Ísraelshers segir árásirnar hafa beinst að hópi herskárra Palestínumanna sem hafi unnið að því að skjóta flugskeytum yfir landamærin til Ísraels.
George W. Bush Bandaríkjaforseti og Abdullah II Jórdaníukonungur munu ræðast við síðar í dag til að ræða leiðir til að stöðva átökin á milli Ísraela og Palestínumanna en 120 Palestínumenn og einn Ísraeli hafa látið lífið í átökum þeirra á undanförnum sex dögum.