Kínverski herinn fær meira fé

Kínversk stjórnvöld ætla að verja auknu fé til hernaðarmála. Alls munu kínversk stjórnvöld  verja um 59 milljörðum dala (um 4000 milljörðum kr.)  til að efla herinn, en þetta nemur um 18% aukningu.

Greint var frá þessu fyrir árlega samkomu kínverska þingsins, sem hefst á morgun.

Sérfræðingar telja hins vegar að fjárhæðin sé tvöfalt til þrefalt hærri en opinberar tölur gefa til kynna.

Gagnrýnt hefur verið að kínversk stjórnvöld séu ekki gagnsæ í því að sýna fram á í hvað peningarnir fara.

Talsmaður kínverska þjóðarþingsins segir að bróðurpartur hækkunarinnar fari í að greiða hermönnum laun og olíu, sem hefur hækkað mikið í verði. Hann segir að eitthvað fari í ný vopn.

Hann segir að Kína ógni ekki öðrum ríkjum heldur hafi herinn það hlutverk að verja landið og sjálfstæði þess.

Hann bendir á að Kínverjar hafi eytt minna í varnarmál heldur en Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Rússland, þ.e. sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Kínverskir hermenn sjást hér á heræfingu.
Kínverskir hermenn sjást hér á heræfingu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert