Kjósendur Demókrataflokksins velja á milli öldungardeildarþingmannanna Hillary Clinton og Barack Obama í fjórum fylkjum Bandaríkjanna í dag. Undanfarið hefur Obama unnið nokkuð forskot á Clinton og benda skoðanakannanir til að framhald verði á. Forvígismenn flokksins hafa mælst til þess að það sem verr stendur eftir daginn í dag dragi framboð sitt til baka svo hægt sé að einbeita sér að undirbúningi forsetakosninganna sjálfra.
„Þegar það kom að því að taka mikilvægustu ákvörðun kynslóðar okkar í utanríkismálum – um að ráðast inn í Írak – tók Clinton öldungardeilarþingmaður ranga ákvörðun,“ sagði Obama á fundi í Ohio á sunnudag. „Til þessa dags hefur hún ekki einu sinni fengist til að viðurkenna að atkvæði hennar hafi verið mistök, eða einu sinni að hún hafi með því kosið með stríði.“
Clinton vísaði á sama tíma til reynsluleysis Obama. „Það er aldrei að vita hvaða hættuástand kemur upp á,“ sagði hún. „Ég veit að ég gæti varið land okkar.“
„Það sem ég hef áhyggjur af er að deilur þessara tveggja prýðisgóðu öldungardeildarþingmanna séu farnar að dragast á langinn,“ segir Bill Richardson, ríkisstjóri Nýju-Mexíkó.
Richardson dró sig út úr baráttunni um forsetatilnefninguna í byrjun árs en hefur enn ekki lýst opinberlega stuðningi við annan frambjóðanda.
„D-dagurinn er á þriðjudaginn,“ segir Richardson. „Við verðum að hafa jákvæða baráttu eftir þriðjudaginn. Hver sem hefur fleiri kjörfulltrúa þá, afgerandi forystu, ætti að mínu mati að vera frambjóðandinn.“
Fátt bendir til annars en að Obama verði enn í forystu eftir kosningarnar í dag. Clinton var því á sunnudag spurð hvort hún muni draga sig í hlé. „Ég ætla að ná eins góðum árangri og ég get á þriðjudag. Við sjáum hvað gerist eftir það,“ svaraði hún.